14 geimfarar tóku þátt í rannsókninni. Blóðsýni voru tekin úr þeim tvisvar, 10 dögum áður en þeir fóru út í geim og degi eftir að þeir lentu aftur á jörðinni. Síðan voru sýnin geymd í frysti í 20 ár.
Space.com skýrir frá þessu. Fram kemur að vísindamennirnir, sem stóðu að rannsókninni, segi að rannsóknin hafi leitt í ljós að geimferðir breyti DNA geimfara sem aftur þýðir að þeir eru í aukinni hættu á að fá krabbamein. Þetta er þó ekki svo miklu meiri hætta að það teljist krítískt.
Rannsóknin leiddi í ljós að stökkbreytingar höfðu orðið á genum í stofnfrumum geimfaranna.
Vísindamennirnir leggja því til að meiri athygli verði beint á hættunni á að geimfarar fái sjúkdóma af völdum geimferða og að fylgst verði vel með þeim með tíðum blóðsýnatökum.
Í fréttatilkynningu er haft eftir David Goukassian, prófessor í læknisfræði, að tilvist þessara stökkbreytinga sé ekki endilega ávísun á að geimfarar fái hjartasjúkdóma eða krabbamein en það sé hætta á að það geti gerst með tímanum ef þeir eru langtímum saman úti í geimnum.
Rannsóknin hefur verið birt í vísindaritinu Communications Biology.