The Guardian segir að Griffiths hafi sagt að nýjasta greining SÞ á stöðu mála sýni að „beinar vísbendingar“ séu um að til hungursneyðar komi í Baidoa og Burhakaba héruðunum einhvern tímann á tímabilinu frá október til desember.
Á ráðstefnu í Mogadishu sagði hann að hungursneyð sé við þröskuldinn og heimsbyggðin hafi nú fengið lokaaðvörun. Líklegt er talið að hungursneyð ríki að minnsta kosti fram í mars.
Fjögur síðustu regntímabil hafa brugðist og af þeim sökum hafa mörg hundruð þúsund manns hrakist að heiman. Það hefur valdið auknum þrýstingi á veikburða innviði þessa stríðshrjáða lands.
Griffiths sagði að það sem er í uppsiglingu líkist hungursneyðinni 2010-2011 sem varð tæplega 260.000 manns að bana, helmingur þeirra var börn.