Rannsóknir hafa sýnt að hann er að bráðna og að erfitt verður að stöðva bráðnunina. Niðurstöður nýrrar rannsóknar, sem hefur verið birt í Nature Geoscience, sýna að hættan, sem stafar af jöklinum, er meiri en áður var talið.
CNN segir að vísindamenn hafi rannsakað hop jökulsins í sögulegu samhengi og komu niðurstöðurnar þeim á óvart.
Þeir komust að því að jökullinn hafi einhvern tímann á síðustu tvö hundruð árum rifið sig lausan frá hafsbotni, líklega um miðja síðustu öld, og hafi síðan minnkað um 2,1 kílómetra á ári að meðaltali. Það er tvöfalt meira en áður var talið.
Robert Larter, sjávarjarðeðlisfræðingur hjá British Antarctic Survey, sagði að staða jökulsins sé viðkvæm og reikna megi með að miklar breytingar verði á skömmum tíma, jafnvel á milli ára.
Bráðnun jökulsins getur valdið því að yfirborð sjávar hækki um hálfan metra á heimsvísu. Það myndi hafa skelfilegar afleiðingar fyrir fólk sem býr rétt yfir sjávarmáli.
Rannsókn, sem var gerð á síðasta ári, sýndi að á næstu fimm árum getur ísþiljan, sem heldur jöklinum í jafnvægi og kemur í veg fyrir að ís brotni af honum og fljóti á haf út, eyðilagst. Það hefur hert á bráðnuninni að sjór kemst nú undir jökulinn og veldur því að hann bráðnar einnig neðan frá.