Kóreska veðurstofan (KMA) segir að þetta sé mesta úrkoma sem mælst hefur í marga áratugi. Úrkoman hefur valdið rafmagnsleysi og vegir og neðanjarðarlestarstöðvar eru undir vatni.
Frá miðnætti til klukkan fimm að staðartíma mældist úrkoman 420 mm í Seoul og meiri úrkomu er spáð.
Að minnsta kosti fimm manns létust í Seoul og tveir í Gyeonggi sem er ekki fjarri höfuðborginni. Yfirvöld segja að fjórir hafi látist þegar þeir lokuðust inni í byggingum. Einn lést af völdum raflosts, einn fannst látinn undir strætisvagnaskýli og einn lést í aurskriðu. Að auki er sex saknað og níu meiddust.
KMA reiknar með mikilli úrkomu í miðhluta landsins fram til miðvikudags hið minnsta.