Um 36 ára gamlan ítalskan karlmann er að ræða. Í lok júní fór hann að finna fyrir sjúkdómseinkennum á borð við þreytu, hita og hálsbólgu. Hann hafði komið heim frá Spáni níu dögum áður.
Skýrt er frá málinu í Journal of Infection. Fram kemur að maðurinn hafi dvalið á Spáni frá 16. til 20. júní. Hann sagðist hafa stundað óvarið kynlíf með karlmönnum á þeim tíma.
Þann 2. júlí greindist hann með COVID-19. Að kvöldi þessa sama dags fékk hann útbrot á vinstri handlegginn og daginn eftir komu litlar blöðrur og útbrot fram á búk hans, fótum, andliti og rassvöðvum. Blöðrurnar ollu miklum sársauka.
Þann 5. júlí höfðu blöðrurnar þróast yfir í nokkurskonar graftarbólur. Leitaði maðurinn þá á sjúkrahús í Catania. Þar greindist hann með apabólu. Einnig var rannsakað hvort hann væri með einhverja kynsjúkdóma og kom þá í ljós að hann var með HIV og segja læknar að miðað við magn CD4 megi telja líklegt að smitið hafi verið frekar nýlegt. Maðurinn fór í HIV sýnatöku í september 2021 og var niðurstaðan þá neikvæð.