Brasilísk yfirvöld skýrðu frá þessu í síðustu viku. Það var lögreglan sem frelsaði þau og voru þau öll vannærð og þjáðust af vökvaskorti. Þeim var haldið í húsi í vesturhluta Rio de Janeiro.
Það var nafnlaus ábending sem kom lögreglunni á sporið.
Í tilkynningu frá lögreglunni kemur fram að konan og börn hennar hafi verið bundin föst þegar lögreglan frelsaði þau. Þau hafi verið skítug og soltin.
Börn konunnar eru 19 og 22 ára að sögn brasilískra fjölmiðla.
Fólkið var allt lagt inn á sjúkrahús.
Brasilíski fjölmiðillinn G1 segir að móðirin hafi sagt lögreglunni að hún og börnin hafi stundum ekki fengið mat í þrjá daga í röð og að þau hafi reglulega verið beitt andlegu og líkamlegu ofbeldi.
Eiginmaður hennar sagði henni að hún myndi ekki fara út úr húsinu „fyrr en hún væri dauð“ að sögn konunnar.