BBC skýrir frá þessu. „Þetta var ákveðið form hefndar. Ég hef aldrei séð neinn vera rekinn fyrir að koma undir fimm mínútum of seint,“ er haft eftir henni.
Hún sagði að fljótlega eftir að hún fór að blanda sér í baráttuna fyrir stofnun stéttarfélags hafi yfirmaður hennar byrjað að refsa henni þegar hún mætti nokkrum mínútum of seint en á sama tíma hafi samstarfsfólki hennar ekki verið refsað fyrir að koma of seint.
Hún er ekki eini starfsmaðurinn sem hefur fengið sparkið hjá Starbucks vegna baráttu fyrir aðild starfsfólks að stéttarfélögum. BBC segir að rúmlega 75 starfsmenn keðjunnar hafi verið reknir úr starfi vegna baráttu fyrir að starfsfólkið gangi í stéttarfélög.
Talsmenn Starbucks, sem rekur rúmlega 9.000 kaffihús í Bandaríkjunum, vísa því á bug að um hefnd sé að ræða af hálfu fyrirtækisins. Keðjan hefur lokað nokkrum kaffihúsum þar sem starfsfólk hafði samþykkt að ganga í stéttarfélög.
Forstjóri keðjunnar, Howard Schultz, hefur látið gagnrýnin orð falla þegar rætt er um stéttarfélög og meðal annars sagt að fyrirtækið hafi ekki trú á að þriðji aðilinn (stéttarfélög) eigi að vera í fararbroddi fyrir starfsfólkið og því berjist fyrirtækið um hjarta og huga starfsfólksins og muni ná árangri í þeim efnum.