Maðurinn þjáðist af ofsóknarbrjálæði, geðklofa og taldi að sér væri veitt eftirför. Dómstóll í Trier hefur nú dæmt manninn í ævilangt fangelsi. Segir í niðurstöðu hans að maðurinn, sem er 52 ára, beri „sérstaklega mikla sök“ á því sem gerðist.
Hann var fundinn sekur um fimm morð og 18 morðtilraunir. Sjötta manneskjan lést tæpu ári eftir árásina.
Dómarar komust að þeirri niðurstöðu að maðurinn hefði ekið á fólk, sem af tilviljun var statt í verslunargötunni, þegar hann ók jeppa sínum inn í hana.
Í dómsniðurstöðunni er kveðið á um að hann verði vistaður á geðsjúkrahúsi þar sem öryggisgæsla sé mikil.
Niðurstaða geðlækna var að maðurinn þjáist af ofsóknarbrjálæði og geðklofa. Hann hafi talið sig fórnarlamb „umfangsmikils samsæris á vegum hins opinbera“. Hann hafi talið að sér væri veitt eftirför og að fylgst væri með honum. Hann hafði drukkið áfengi þegar hann ók inn í mannþröngina.