„Það er í fínu lagi að vera ósammála en að senda morðhótanir er of langt gengið. Fólk gengur of langt,“ hefur Norska ríkisútvarpið, NRK, eftir Hilde.
Morðhótunum og annarskonar hótunum hefur rignt yfir hana eftir að Freya var aflífuð. Hún sagði að hótanirnar snúist um hver hún er og hvernig hún lítur út en morðhótanirnar séu verstar. „Þetta snýst um mál sem ég hef ekkert með að gera nema hvað ég er gift Frank,“ sagði hún.
Hún hafði lengi verið með opna Facebooksíðu en sá sig knúna til að loka henni vegna hótananna. „Ég varð bara að loka henni því fólk skrifaði athugasemdir um allt, í allar áttir,“ sagði hún.
Frank sagði að hann muni snúa sér til lögreglunnar vegna málsins: „Það er ekkert vandamál fyrir mig að taka við kvörtunum eða athugasemdum við störf mín en ég tel það fara út fyrir öll mörk að beina spjótunum að fjölskyldu minni. En því miður er það orðið hluti af hinu daglega lífi.“