Sky News segir að samkvæmt frétt norðurkóresku ríkisfréttastofunnar KCNA þá hafi Pútín stungið upp á að ríkin tvö vinni að því að auka samvinnu sína. Hafi Pútín skrifað að aukið samstarf ríkjanna muni verða til þess að auka öryggi og jafnvægi á Kóreuskaga og í norðaustanverðri Asíu.
Kim svaraði bréfi vinar síns í Moskvu og sagði að sögn að frá því að vinátta Rússlands og Norður-Kóreu hafi komist á í tengslum við sigurinn yfir Japan í síðari heimsstyrjöldinni hafi hún náð nýjum hæðum hvað varðar samvinnu þeirra og samstöðu. Hann sagði að sameiginlegar aðgerðir ríkjanna til að takast á við hótanir og ögranir „fjandsamlegra herja“ tengi þau sterkum böndum.
KCNA skilgreindi ekki hvað „fjandsamlegir herir“ eru en venjulega er þetta orðalag notað yfir Bandaríkin og bandamenn þeirra.