Vísindamenn hafa um langa hríð séð að hitastigið á norðurheimskautasvæðinu hækkar hraðar en víðast hvar annars staðar á jörðinni. Raunar tvöfalt hraðar.
En hvað með hitastig sjávar á þessum slóðum? Um þetta var fjallað nýlega á vef Norska ríkisútvarpsins í tengslum við niðurstöður nýrrar rannsóknar sem Marius Årthun, hjá loftslagsdeild Bjerknessenteret, gerði ásamt kínverskum og þýskum vísindamönnum.
Þeir komust að því að efstu 2.000 metrarnir í Norður-Íshafinu hafa hlýnað 2,3 sinnum hraðar en meðal hlýnunin er á heimsvísu.
Mesta hlýnun sjávar í framtíðinni verður í Barentshafi. Þar mun sjávarhitinn hækka um meira en fimm gráður á þessari öld ef ekki tekst að ná tökum á hlýnuninni.
Þetta mun óhjákvæmilega hafa mikil áhrif á allar lífverur sem lifa í og við nyrstu hafsvæði jarðarinnar.
Það er fyrirbæri sem nefnist „Arctic Amplification“ sem veldur því að hitinn á norðurheimskautasvæðinu hækkar meira en annars staðar í heiminum. Til dæmis veldur bráðnun hafíss því að minna sólarljós endurkastast. Það að sólarljósið, sem er orka, endurkastast ekki veldur því að hlýnunin verður enn hraðari. Það veldur því síðan að meiri ís bráðnar og því er um einhverskonar vítahring að ræða.
Marius sagði að þessu til viðbótar streymi meira af heitum sjó frá suðlægum breiddargráðum norður á bóginn.