Eldhúsið er staður sem mörg okkar eyða miklum tíma í. Við eldum matinn þar og við borðum hann, við vöskum upp og bjóðum gestum jafnvel að eldhúsborðinu til að þiggja kaffisopa og meðlæti.
En eldhúsið getur hratt orðið skítugt og óreiða getur náð tökum á því. Slæm lykt getur fylgt þessu. Þá er gott að eiga sítrónu.
Sítrónur búa yfir þeim eiginleika að þær eyða lykt og draga bakteríur í sig að því er segir á vef Homemaking.
Þetta er auðvitað mjög praktískt þegar kemur að því að glíma við lykt af matarafgöngum í eldhúsinu. Bent er á að hægt sé að skera sítrónu í sneiðar, strá smávegis salti á sneiðarnar og láta þær liggja uppi á borði yfir nótt.
Sítrónan dregur lykt og bakteríur í sig og saltið hjálpar góðri og frískri sítrónulykt að dreifa sér. Fersk sítrónulykt tekur því á móti þér í eldhúsinu næsta morgun.