Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar vísindamanna við Læknaháskólann í Vínarborg. 43 karlar og konur tóku þátt í rannsókninni. Daily Mail skýrir frá þessu.
Fram kemur að niðurstöður rannsóknarinnar séu þær að fólk sem borðar eingöngu grænmeti og stundar styrktaræfingar frekar en aðrar tegundir hreyfingar, eins og hjólreiðar og sund, sé hugsanlega með sterkari bein en aðrar grænmetisætur.
Þátttakendurnir höfðu verið grænmetisætur í minnst fimm ár. Þeir sem höfðu stundað styrktaræfingar, til dæmis lyftingar, voru með sterkari bein en þeir sem ekki höfðu gert það.
Niðurstöður rannsóknarinnar hafa verið birtar í Journal of Clinical Endocrinology & Metabolism.
Daily Mail segir að rannsókn, sem var birt á síðasta ári, hafi leitt í ljós að börn sem alast upp sem grænmetisætur séu ekki eins hávaxin og önnur börn og bein þeirra séu veikari. Á móti voru börnin, sem voru grænmetisætur, með heilbrigðara hjarta og æðakerfi. Það voru 25% minni líkur á að þau væru með „slæma“ kólesterólið og þau voru með minni líkamsfitu.
Christian Muschitz, einn höfunda nýju rannsóknarinnar, sagði að fólk sem neyti eingöngu grænmetisfæðis ætti að stunda reglulegar styrktaræfingar til að varðveita styrk beinanna.