Aftonbladet skýrir frá þessu. Segir blaðið að aðgerðir lögreglunnar hafi byrjað um klukkan 16 á föstudaginn. Þær hafi byggst á rannsóknarvinnu hennar dagana á undan. Akstur bílsins var stöðvaður á Gjörwellsgatan og var stóru svæði lokað af á meðan sprengjusérfræðingar leituðu í bílnum. Á meðan beið fjöldi sjúkrabíla og slökkviliðsbíla álengdar.
Karl á þrítugsaldri og kona á fertugsaldri voru handtekin. Maðurinn ók bílnum og konan var farþegi í honum.
Í kjölfar handtökunnar var gerð húsleit heima hjá konunni. Þar fundust nokkur hundruð kíló af fíkniefnum. Segir Aftonbladet að heimilinu hafi verið lýst sem „fíkniefnamiðstöð“.
Ekki er vitað hvað þau ætluðu sér með sprengiefnið en bæði neita sök hvað varðar vörslu og meðferð sprengiefnisins og fíkniefna.