Þetta er ekki eitthvað hornsíli sem Bandaríkjamenn fengu framselt þarna, Vinnik er sannkallaður stórlax, ekki síst í ljósi þeirrar miklu spennu sem ríkir á milli Bandaríkjanna og Rússlands þessa dagana.
Í fréttatilkynningu frá bandaríska dómsmálaráðuneytinu er haft eftir Kenneth A. Polite, varadómsmálaráðherra, að framsalið sýni hversu mikla áherslu bandarísk yfirvöld leggja á baráttuna gegn netglæpum. Hann þakkaði grísku ríkisstjórninni fyrir þeirra þátt í að tryggja framsalið til Bandaríkjanna.
Samkvæmt ákærunni stóð Vinnik á bak við rafmyntamarkað sem hann græddi vel á með því að leyfa glæpamönnum að hvítþvo rúmlega fjóra milljarða dollara.
Honum varð það á að fara í frí til Grikklands þar sem hann var handtekinn. Lögreglumaður náði að dreifa athygli hans á meðan annar náði farsíma hans. Í honum voru upplýsingar sem urðu honum að falli.
Í kjölfarið ákærðu bandarísk yfirvöld hann fyrir að hafa tekið við greiðslum frá afbrotamönnum. Peninganna öfluðu glæpamennirnir með tölvuárásum, einkennaþjófnaði, fíkniefnasölu og skattsvikum.