Lögreglan skýrði frá þessu í nótt og segir að maðurinn hafi nú þegar verið kærður fyrir morðin á Aftab Hussein, 41 árs, og Muhammed Afzaal Hussain, 27 ára. Hussein var myrtur 26. júlí og Hussain 1. ágúst. Maðurinn er grunaður um tvö morð til viðbótar.
Annað þeirra er morðið á Mohammad Ahmadi, 62 ára, 7. nóvember á síðasta ári en talið er að hann hafi verið fyrsta fórnarlamb morðingjans.
Lögreglan fann nokkur skotvopn heima hjá hinum handtekna. Lögreglan hefur einnig gögn undir höndum sem sanna að maðurinn þekkti fórnarlömbin að einhverju leyti. Í tilkynningu lögreglunnar kemur fram að hugsanlega hafi persónulegar deilur verið orsök morðanna.
The New York Times segir að hugsanleg ástæða fyrir morðunum sé að maðurinn hafi verið reiður yfir því að dóttir hans giftist Síta en hann er sjálfur súnníti.
Morðin voru öll framin í Albuquerque sem er stærsta borg Nýju Mexíkó. Þar búa um 565.000 manns, þar af eru um 5.000 múslimar. Mikil hræðsla hefur ríkt í samfélagi múslima í borginni að undanförnu vegna morðanna en öll fórnarlömbin voru af afgönskum eða pakistönskum uppruna.
Lögreglan segir að segja megi að um fyrirsát hafi verið að ræða í öllum málunum.