Niðurstaða vísindamannanna er að ef fólk drekkur meira en fimm vínglös á viku byrji hin líffræðilega klukka líkamans að flýta sér.
Rannsóknin leiddi í ljós að þeir sem drukku meira en 17 einingar af áfengi á viku voru með styttri litningsenda en þeir sem ekki drukku svo mikið. Daily Mail skýrir frá þessu.
Litningsendar eru líffræðilegir tappar á enda litninganna. Þeir vernda DNA í þeim fyrir tjóni, svona álíka og „tappar“ á enda skóreimar koma í veg fyrir að þær rakni upp.
Litningsendarnir styttast eftir því sem við eldumst og það hefur í för með sér að DNA skemmist og hættan á að við þróum sjúkdóma á borð við Alzheimers, sykursýki og hjartasjúkdóma með okkur aukast.
Áður hafa vísindamenn tengt langa litningsenda við það að fólk líti unglega út.
Niðurstöður rannsóknarinnar hafa verið birtar í Molecular Psychiatry. Hún byggir á gögnum um 245.000 Breta. Vísindamennirnir rannsökuðu aðeins litningsendana í fólki sem drakk meira en 17 einingar áfengis á viku en það er þrefalt það magn sem bresk heilbrigðisyfirvöld telja vera ráðlegt. Meðalaldur fólksins var 57 ár og var því skipt eftir kyni.
Rannsóknin leiddi meðal annars í ljós að þeir sem drukku 29 einingar af áfengi á viku, það eru um 10 stór vínglös, voru einum eða tveimur árum eldri en þeir sem drukku undir sex einingum á viku, ef aldurinn var lesinn úr litningsendunum.
Vísindamennirnir fundu skýr tengsl á milli mikillar áfengisneyslu og styttri litningsenda.