Gaetz beindi orðum sínum beint að þeim konum sem hafa mótmælt niðurstöðu Hæstaréttar. Að sögn USA Today sagði hann að konur sem mótmæla úrskurðinum séu síður líklegar til að verða barnshafandi því þær séu ekki eins aðlaðandi.
„Af hverju er það svo að konur, sem eru síst líklegar til að verða barnshafandi, hafa mestar áhyggjur af því að fara í þungunarrof? Enginn vill barna þig ef þú líkist þumalfingri,“ sagði hann og lýsti þessum konum sem lágvöxnum og feitum og sagði að þeim veitti ekki af að hreyfa sig í að minnsta kosti klukkustund á dag.
Eins og áður sagði hefur Gaetz áður komist í sviðsljósið vegna orða sinna og aðgerða. Til dæmis mætti hann í bandaríska þinghúsið fyrir tveimur árum með gasgrímu. Hann sagðist vera að gera grín að kórónuveirunni og þeim sóttvarnaráðstöfunum sem gripið hafði verið til.
Stjórnmálaferill hans hangir á bláþræði þessa dagana því hann er grunaður um að hafa stundað kynlíf með ungmenni og að hafa brotið lög um kynlífsviðskipti. Politico segir að mál hans verði tekið fyrir hjá dómstóli í desember.