Sky News segir að vísindamenn við University of Birmingham hafi gert rannsóknina sem byggist á sjúkraskýrslum 2,4 milljóna Breta. Rannsóknin hefur verið birt í vísindaritinu Nature Medicine.
Tíðni langvarandi COVID-19 er hæst meðal kvenna, fólks á aldrinum 35 til 69 ára, fólks sem býr við kröpp kjör, fólks sem vinnur við félagslega þjónustu, kennslu, í heilbrigðiskerfinu og hjá þeim sem glíma við vanheilsu eða fötlun.
Þreyta er algengasta einkennið en 55% sögðust glíma við þreytu, 32% glímdu við mæði, 23% við hósta og 23% við beinverki.
Í rannsókninni kom einnig fram að meðal annarra einkenna eru: minnisleysi, hreyfistol, erfiðleikar við að hafa stjórn á hægðum, ofskynjanir, bólgur í útlimum, hármissir og erfiðleikar við að stunda kynlíf.
Þetta er í fyrsta sinn sem hármissir og erfiðleikar við að stunda kynlíf komast á lista yfir langtímaeinkenni COVID-19.