Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar og er þetta í fyrsta sinn sem í ljós kemur hvað leynist undir skýjunum í lofthjúp plánetunnar.
Lítil var vitað um Júpíter því stjörnusjónaukar hafa aðeins getað séð hringiður skýja í efstu lögum lofthjúpsins sem aftur skyggðu á það sem undir er. Mirror skýrir frá þessu.
Nýja rannsóknin er byggð á gögnum um þyngdarafl sem var aflað með Juno geimfari bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA. Með þessum gögnum var hægt að skyggnast undir skýjahjúpinn.
Vísindamennirnir komust að því að í kjarna plánetunnar er fast efni sem inniheldur mjög mikið af þungum efnum. Það bendir til að Júpíter hafi gleypt litlar plánetur. Líf Júpíters hófst með því að aðdráttarafl plánetunnar dró að sér loftsteina og gas úr mikilli fjarlægð.
Niðurstöður rannsóknarinnar styðja þá kenningu að kjarni Júpíters hafi myndast úr litlum plánetum, eiginlega stórum loftsteinum. Þessir steinar hefðu hugsanlega getað myndað plánetur á borð við jörðina eða Mars.