Í samtali við Variety sögðu bræðurnir Matt og Russ Duffer, sem eru höfundar þáttanna, að þeir hafi fengið sérstakt leyfi hjá Netflix til að breyta ákveðnum atriðum í fyrri þáttaröðum.
„Ég held að við munum taka þetta eins og George Lucas,“ sagði Matt í viðtalinu og vísaði þar til velþekktrar þarfar Lucas, sem er maðurinn á bak við Stjörnustríðsmyndirna, til að breyta kvikmyndum sínum eftir á.
Eitt vandræðalegasta atriðið sem þeir bræður hafa þurft að takast á við er að í fjórðu þáttaröðinni kemur fram að persónan sem Noah Schnaps leikur eigi afmæli í maí en í annarri þáttaröðinni kemur fram að afmælisdagurinn sé 22. mars.
Bræðurnir hafa áður sagt, einnig í samtali við Variety, að þetta hafi verið leyst með því að tala yfir það sem sagt er í annarri þáttaröðinni þannig að „maí“ hafi verið talað yfir „mars“.
Í nýja viðtalinu segja bræðurnir að þetta sé ekki það eina sem þeir hafi breytt. „Við höfum George Lucasað atriði sem fólk veit ekki um,“ sagði Matt.
Þeir vildu ekki skýra frá hvaða breytingar þetta væru og sögðu að fólk yrði bara að horfa á þættina og finna út úr því. Þeir fullyrtu þó að þetta væru ekki róttækar breytingar, aðallega sjónrænar breytingar sem hafi ekki áhrif á söguþráðinn.