Maðurinn kom með drenginn á leikskólann og skildi hann þar eftir með bakpoka sem innihélt föt til skiptanna og farsíma. Drengurinn var aldrei sóttur. South China Morning Post skýrir frá þessu.
Leikskólakennarar höfðu samband við foreldra drengsins og aðra ættingja. Foreldrarnir neituðu að sækja drenginn og sagði faðirinn að faðernispróf hefði leitt í ljós að hann væri ekki líffræðilegur faðir hans. Af þeim sökum vildi hann ekki fá drenginn aftur og sagði að nú væri hann á ábyrgð leikskólans.
Þegar einn leikskólakennaranna fór heim til fjölskyldunnar var húsið tómt og nú er ekki vitað hvar foreldrarnir eru.
Lögreglan var beðin um aðstoð og hafði hún samband við afa drengsins og frænda. Þeir neituðu einnig að taka við honum.
Kínverska útvarpsstöðin Nanning Radio segir að reiknað sé með að móðir drengsins sæki hann á næstu dögum.