„Það gæti fallið. Það er hugsanlegt,“ hefur Jótlandspósturinn eftir Anna Christiansson, vakthafandi veðurfræðingi.
Hæsti hiti sem mælst hefur í Danmörku er 36,4 gráður en sú mæling var gerð þann 10. ágúst 1975 í Holsterbro á Jótlandi.
Ef metið fellur í dag þá fellur það á Jótlandi en þar verður hlýjast í dag. Samkvæmt spám verður hitinn kominn í um og yfir 30 gráður töluvert fyrir hádegi víða á Jótlandi og áfram mun hlýna fram eftir degi.
„Það lítur út fyrir að við komumst upp í 35-36 gráður á Jótlandi. Við syðsta hlutann og vestasta hlutann er rönd þar sem mesti hitinn verður. Það er þangað sem loftið berst frá Þýskalandi,“ sagði Chistiansson.
Hitinn mun væntanlega ná hámarki um klukkan 15 og þá fellur metið hugsanlega.
DMI sagði í gær að líklega muni metið falla, ef það fellur, í bænum Store Jyndevad sem er við þýsku landamærin. Hann liggur vel við suðaustan vindinum sem ber heitt loft upp til Danmerkur í dag.
En þótt þetta hitamet falli ekki gæti annað hitamet fallið í dag. Það er hæsti hiti sem mælst hefur í júlí. Hann er 35,3 gráður og telja veðurfræðingar mjög líklegt að það met falli.