Sky News skýrir frá þessu og segir að samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni hafi áhöfn brynvarins verðmætaflutningabíls verið að flytja eðalsteina og skartgripi á milli skartgripaverslana.
Að sögn Brandy Swanson, forstjóra Brink öryggisfyrirtækisins sem á bílinn, þá voru 25 til 30 pokar teknir úr honum. Í þeim var óþekkt magn verðmætra muna.
Tölur um verðmæti þýfisins eru mjög á reki. Samkvæmt því sem 18 fórnarlömb ránsins segja þá er það rúmlega 100 milljónir dollara en talsmaður Brink segir það vera undir 10 milljónum dollara. Í yfirlýsingu frá Brink segir að samkvæmt upplýsingum sem viðskiptavinir létu fyrirtækinu í té áður en þeir sendu munina sé heildarverðmæti þeirra undir 10 milljónum dollara.
Fyrirtækið segist vinna með lögreglunni að rannsókn málsins og muni bæta viðskiptavinum sínum það tjón sem þeir urðu fyrir í samræmi við samninga þeirra.
Swanson sagði að þau fyrirtæki sem senda skartgripi á milli sýningarstaða tryggi muni sína venjulega ekki að fullu því þau hafi ekki efni á því. Það skýri þann mun sem er á verðmæti þýfisins miðað við það sem Brink segir og það sem eigendur munanna segi.