Ekstra Bladet hefur eftir Mette Wagner, vaktstjóra hjá dönsku veðurstofunni (DMI), að hitinn geti farið í um 35 gráður á morgun. Hún sagði að hitinn fari hærra á morgun en í dag og í gær og verði á bilinu 28 til 33-35 gráður. „Við verðum svo að sjá hvort hann fari hærra ef rétta vindáttin er,“ sagði hún.
Samkvæmt spá DMI gæti hitinn í Viborg og Holstebro á Jótlandi náð 35 gráðum seinnipartinn á morgun.
Hitametið frá 1975 var sett í Holstebro en þá mældust 36,4 gráður þar.
Wagner sagðist ekki þora að spá því að það falli að þessu sinni, mikil óvissa sé enn um margt sem skipti máli um hvort metið falli. Ef metið á að falla þurfi vindáttin að vera rétt. „Þá er það þannig að við verðum að hafa sunnanvind svo loftið komi frá Suður-Evrópu upp eftir Þýskalandi og inn yfir Danmörku og það verður að vera mjög hægur vindur,“ sagði hún.
Í dag spáir DMI almennt 25 til 30 gráðu hita en hugsanlega allt að 32 gráðum sums staðar og þá einna helst á sunnanverðu Jótlandi.