Sky News segir að hinn mikli hiti hafi nú þegar valdið miklum truflunum á samgöngum. Til dæmis varð að loka Luton flugvelli um hríð í gær því flugbrautir voru ónothæfar vegna hita. Þá eru lestarsamgöngur víða úr skorðum vegna hita.
Rachel Ayers, hjá Met Office, sagði að dagurinn í dag verði „fordæmalaus“ því hitinn fari hugsanlega í 41 stig á nokkrum stöðum í Englandi. „Það mun gera þetta að heitasta degi sögunnar og í fyrsta sinn sem við sjáum hitann fara í 40 stig,“ sagði hún.
Hitamet munu væntanlega einnig verða slegin í Skotlandi og Wales. Í gær fór hitinn í 37,1 stig í Wales.
Yfirvöld hafa hvatt fólk til að ferðast ekki nema það sé „algjörlega nauðsynlegt“. Ayers sagði að reikna megi með áframhaldandi töfum á vegum úti, að vegum verði lokað og að tafir verði á ferðum járnbrautarlesta og þeim jafnvel aflýst. Einnig geti verið erfitt að halda uppi flugsamgöngum.
Sir David King, sérfræðingur í loftslagsmálum, sagði í samtali við Sky News að hitabylgjur af þessu tagi muni „endurtaka sig og verða enn verri í framtíðinni“. Bob Ward, hjá London School of Economics, sagði að Bretar verði að hætta „að hugsa um sig sem búandi í köldu landi“. „Á sumrin eru við núna heitt land,“ sagði hann.