Ef þú ert önnur þessara manngerða þá eru baðvenjur þínar ekki í samræmi við ráðleggingar sérfræðinga. Þeir segja að það sé nóg að fara í bað tvisvar í viku.
Þetta er niðurstaða bandarískrar rannsóknar. Time.com skýrði frá þessu. Fram kemur að Elaine Larson, smitsjúkdómasérfræðingur við Columbia University School of Nursing, segi að engin ástæða sé til að fara daglega í bað. Larson vann að rannsókninni.
„Fólk heldur að það fari í bað af hreinlætisástæðum eða til að verða hreinna en út frá bakteríufræði er það ekki þannig. Bað fjarlægir lykt, ef það er ólykt af þér eða þú varst á æfingu,“ sagði hún og bætti við að það sé mikilvægara að muna að þvo sér reglulega um hendurnar og það vel.
C. Brandon Mitchell, prófessor í húðsjúkdómafræði við George Washington University, sagði að ef fólk vilji endilega fara í bað daglega eigi það að einbeita sér að mikilvægustu svæðunum, ekki öllum líkamanum því sum svæði geti ofþornað. Hann sagði að mikilvægast sé að þvo handarkrikana, endaþarminn og kynfærin því þetta séu þau svæði sem framleiði sterkustu lyktina. Restin af líkamanum þarfnist ekki sápuþvottar daglega.