„Ég sat á handklæðinu mínu á ströndinni. Ég naut andvarans þegar villisvín kom nálægt mér: Ég var alveg kyrr, manni er ráðlagt að vera það, en síðan kom það að mér og beit mig í handlegginn,“ sagði hún samtali við La Repubblica að sögn The Guardian.
Hún var nýbúin að borða pítsu þegar „ansi stórt“ villisvín nálgaðist hana. „Ég hélt að pítsan hefði laðað það að og að það myndi reyna að opna pitsukassann en það voru pitsuafgangar í honum. Þess í stað beit það mig,“ sagði hún.
Hún sagðist hafa öskrað og þá hafi annar strandgestur komið henni til aðstoðar en aðrir hafi flúið í örvæntingu. Hún var flutt á sjúkrahús þar sem hún fékk stífkrampasprautu, sýklalyf og lyf við hundaæði. Einnig var gert að sári á handlegg hennar en það blæddi úr því.
Þetta var ekki í fyrsta sinn sem villisvín birtist á ströndinni í Genúa. Í júní reyndu þrjú villisvín að stela veitingum sem höfðu verið settar á borð á ströndinni. En atvikið á föstudaginn er það fyrsta þar sem villisvín hefur bitið manneskju.
Nokkrar umræður hafa verið á Ítalíu að undanförnu vegna fjölgunar villisvína en fólki stendur stuggur af þeim og þau eru ekki hrædd við að leita inn í borgir og bæi.