Sky News og fleiri breskir miðlar skýra frá þessu. Segja þeir að háttsettir embættismenn hafi nú þegar fundað um viðbrögð við væntanlegri hitabylgju.
Ef neyðarástandi verður lýst yfir mun það hafa áhrif á skólastarf, samgöngur og heilbrigðiskerfið.
Nýjustu spár bresku veðurstofunnar, Met Office, segja að 30% líkur séu á að hitamet falli á sunnudaginn og að þá mælist hæsti hiti sem hefur nokkru sinni mælst á Bretlandseyjum. Hefur veðurstofan sent út viðvörun vegna þessa.
Núverandi hitamet er 38,7 gráður en það var sett í Cambridge 2019. Ýjað hefur verið að því í breskum fjölmiðlum að hitinn geti farið í allt að 40 gráður.
En það eru fleiri en Bretar sem glíma við mikinn hita þessa dagana. Á Spáni og í Portúgal er hitinn víða um og yfir 40 gráður.