Að sögn The Guardian telja vísindamennirnir að ástæðan sé að sumir séu með óvenjuleg ónæmisviðbrögð sem eyðileggi í raun frumur í nefinu. Þeir komust að þessari niðurstöðu með því að rannsaka sýni úr nösum fjölda sjúklinga.
Niðurstaða rannsóknarinnar er að þeir sem áttu í langvarandi vanda með lyktarskynið eru með ónæmisfrumur í slímhimnu nefsins, sem brugðust óvenjulega við smiti og gátu eyðilagt mikilvægar taugafrumur.
Rannsóknin leiddi einnig í ljós að frumurnar brugðust við á sama hátt þrátt fyrir að sjúkdómurinn væri afstaðinn.
Bradley Goldstein, lektor í taugalíffræði við Duke University í Norður-Karólínu, vann að rannsókninni. Hann hefur látið hafa eftir sér að þessi óvenjulegu ónæmisviðbrögð frumanna geti hugsanlega skýrt fleiri langvarandi einkenni sem leggjast á COVID-19-sjúklinga.
Talið er að um 15 milljónir manna, á heimsvísu, hafi misst lyktarskynið um langa hríð í tengslum við COVID-19.
Science Translational Medicine segir að rannsóknin geti hjálpað til við að ryðja brautina fyrir nýjar tegundir meðferða fyrir þá sem missa lyktarskynið.