Sofia Ivanovna Zhukova, einnig þekkt sem amma kviðrista, var 81 árs þegar að hún var loks dregin fyrir dóm fyrir glæpi sína. Hún er elsti fjöldamorðingi sem vitað er af í Rússlandi.
Ólæs og óskrifandi
Zhukova fæddist í litlu þorpi, Zvyagino, árið 1939. Foreldrar hennar voru bláfátækt verkafólk og gekk Zhukova til dæmis aldrei í skóla. Hún var svo að segja ólæs og óskrifandi alla sína ævi og hóf ung að vinna við verkamannastörf, líkt og foreldrar og systkini.
Zhukova flutti þaðan til borgarinnar Khabarovsk, sem er með ríflega hálfa milljón íbúa, giftist og eignaðist tvo syni.
Það fara engar sögur af Zhukova allan þann tíma sem hún var gift manni sínum.
Maður hennar lést aftur á móti árið 2005 og við það gjörbreyttist hegðun Zhukonva. Hún hóf að angra nágranna sína, efna til rifrilda og hóta þeim. En enginn tók hina 66 ára gömlu konu alvarlega.
Hún var bara ein af þessum þreytandi gamalmennum.
Morðið á litlu stúlkunni
Í desember 2005 myrti Zhukova sjö ára dóttur nágranna síns, Anastasia Alexeenko, með exi. Hún sundurlimaði líkið, setti hlutana í plastpoka og skildi eftir úti á götu að nóttu til.
Þegar að líkamsleifar litlu stúlkunnar fundust grunaði engan gömlu konuna um verknaðinn.
Hún útskýrði síðar ástæðuna fyrir morðinu, Anastasia hafði verið of hávær þegar hún lék sér fyrir utan hús hennar.
Vinkonumorðið
Næsta morð framdi Zhukova í mars árið 2013, þá 74 ára gömul. Hún myrti vinkonu sína, hina 77 ára gömlu Anastasia Mikheeva sem var í heimsókn hjá henni, og einnig með exi.
Hún endurtók leikinn, hlutaði vinkonuna í sundur, setti í poka og skildi eftir á einni af götum borgarinnar.
Í þetta skiptið var unnt að rekja ferðir vinkonunnar til Zhukova sem kvaðst ekkert vita, Anastasia hefði kvatt og farið.
Reyndar komu glöggir lögreglumenn auga á blóð á gólfi íbúðarinnar en Zhukova útskýrði að Anastasia hefði fengið blóðnasir meðan á heimsókninni stóð, enda með háan blóðþrýsting. Hún hefði ekki komið sér í að þrífa blóðið, komin á þennan aldur og allt það.
Lögreglan var vantrúuð á söguna en hafði ekki nóg í höndunum til að handtaka þá gömlu.
Húsvörðurinn sem valdi sér rangan leigusala
Aðfaranótt 29. janúar 2019 framdi Zhukova þriðja morðið og var þá orðin fjöldamorðingi, samkvæmt hefðbundnum skilgreiningum um þrjú eða fleiri fórnarlömb.
Aftur greið Zhukova til axarinnar góðu og hakkaði hinn 57 ára gamla Vasily Shlyakhtich til dauða. Sá var húsvörður sem leigði herbergi í íbúð Zhukova.
Enn og aftur sundurlimaði hún líkið, setti í plastpoka og henti við hlið ruslatunna í hverfinu. Það var hópur tíu ára barna sem voru að leika sér sem fundu leifarnar af húsverðinum.
Í þetta skiptið var enginn vafi um hver morðinginn væri og var Zhukova snarlega handtekinn.
Hún játaði aðeins morðið á húsverðinum en í gæsluvarðhaldi trúði hún klefafélaga sínum fyrir því að hún hefði í raun tvisvar myrt áður.
Fullkomlega eðilegar skýringar
Klefafélaginn var ekki lengi að láta yfirvöld vita og Zhukova játaði á sig morðin þrjú en á móti kæmi að hún hefði haft prýðisgóðar ástæður fyrir að myrða fórnarlömb sín og hakka í sundur.
Litla stúlkan hafði verið hávær, vinkonan hafði ekki sýnt henni þá virðingu sem hún átti skilið sem gestgjafi en húsvörðurinn hefði reynt að nauðga henni. Bar hún fyrir sig sjálfsvörn.
Hún dró aftur á móti játningar sínar til baka tveimur mánuðum síðar.
Zhukova var rannsökuð af her sálfræðinga og sérfræðinga sem allir komust að þeirri niðurstöðu að gamla konan væri fullkomlega heilbrigð á geði.
Undirbúningur réttarhalda hófst þegar og lögregla hélt áfram rannsókn sinni.
Innyfli úr húsverðinum fundust í ísskáp Zhukova og þótt margir grunuðu þá gömlu um mannát neitaði hún því ávallt.
Hún játaði einnig að hafa haldi hinni sjö ára gömlu Anastasiu fanginni í íbúð sinni í þrjár vikur áður en hún myrti hana, til að kenna henni lexíu.
Reyndar fannst DNA úr litlu stúlkunni í baðherbergi Zhukova þótt 14 væru liðin frá morðinu.
Munum aldrei vita
En Zhukova þurfti aldrei að greiða skuld sína til samfélagsins. Hún lést úr Covid, 29. desember 2020, fljótlega eftir að réttarhöldin hófust.
Lögregla er næstum fullviss um að Zhukova beri ábyrgð á að minnsta kosti fjórum morðum til viðbótar þeim þremur sem hún játaði.
Og sennilegast mun fleiri.