Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar. Í henni kemur fram að loftslagsbreytingarnar muni hraða útrýmingu ýmissa tegunda á næstu áratugum. Rándýr missa bráð sína, sníkjudýr missa hýsla sína og hækkandi hitastig kemur illa niður á viðkvæmu lífi.
Rannsóknin var birt nýlega í Science Advances. Vísindamenn notuðu ofurtölvu til að gera tölvulíkan af jörðinni með hinum ýmsu tegundum lífvera. Þeir notuðu líkanið síðan til að öðlast skilning á áhrifum hnattrænnar hlýnunar og landnotkunar á lífið á jörðinni.
Vísindamennirnir segja að fyrir 2050 sé hætta á að 6% allra plöntu- og dýrategunda hverfi af sjónarsviðinu. Verstu hugsanlegu niðurstöður líkansins eru að 27% plantna og dýra geti horfið af sjónarsviðinu fyrir aldamót.
Rannsóknin náði til 150.388 tegunda og eru niðurstöðurnar að 42.000 tegundir geti dáið út, aðallega vegna áhrifa af því sem við mennirnir gerum.