Áður var unnið við rannsóknir á efnavopnum í rannsóknarstofunni en nú er unnið við rannsóknir á litlum mammút. Franski efnafræði- og eðlisfræðiprófessorinn Michel Claverie telur mikla hættu stafa af þessum rannsóknum.
Þar er að sögn verið að reyna að endurlífga 400.000 ára gamlar veirur. „Rannsóknin er mjög, mjög áhættusöm,“ sagði hann í samtali við The Times.
Rannsóknarstofan, sem heitir Vector, er í Novosibirsk. Þar hafa fundist mörg forsöguleg dýr. Eitt þeirra er 10.000 ára gamall mammút, ungt dýr. Rússnesku vísindamennirnir vinna við tilraunir með veirur í honum og ef þeim tekst að koma lífi í þær getur það valdið nýjum heimsfaraldri að sögn Claverie.
„Ónæmiskerfi okkar hefur aldrei tekist á við veiru af þessu tagi,“ sagði hann.
Hann var meðal þeirra sem fundu 30.000 ára gamla veiru í sífrera í Síberíu 2014. Það var ekki hættuleg veira en á þeim tíma sagði hann við BBC að rannsóknir á dýpri lögum sífrerans væri „uppskrift að hörmungum“.
Eftir því sem hann segir þá eru það ekki endilega veirurnar sem eru svo hættulegar, það sé frekar rannsóknarstofan sjálf. Ástæðan er að rannsóknarstofan er þekkt fyrir að þar hafa komið upp mörg mál þar sem hlutirnir fóru algjörlega úr böndum.
2004 lést kona, sem starfaði sem vísindamaður í rannsóknarstofunni, eftir að hún sprautaði sjálfa sig með ebóluveiru þegar hún var að gera rannsóknir á marsvínum.
Rannsóknarstofan komst einnig í fréttirnar 2019 þegar sprenging varð þar og eldur kviknaði. Þá var óttast að banvænar veirur á borð við ebólu og bólusótt gætu borist frá henni því slíkar veirur voru geymdar þar.
Claverie sagðist ekki hafa mikla trú á rannsóknarstofan sé mjög nútímaleg og tæknivædd.