BBC segir að mannrán séu vaxandi iðnaður í borginni en þar er ástandið vægast sagt slæmt. Sameinuðu þjóðirnar segja að frá áramótum og þar til í júní hafi um 1.000 manns verið myrt í borginni.
Auk morðanna verða borgarbúar að vera á varðbergi gagnvart mannræningjum. Flest mannránin eiga sér stað að morgni til þegar fólk er á leið til vinnu. Mannræningjarnir krefjast síðan lausnargjalds sem er yfirleitt á bilinu frá 200 dollurum og upp í eina milljón dollara.
SÞ segja að á fyrstu níu mánuðum ársins hafi verið tilkynnt um 1.107 mannrán í borginni.
Á hótelinu, sem fréttamenn BBC bjuggu á í borginni, búa starfsmennirnir 50 þar því það er of hættulegt að fara út en hótelið er miðsvæðis.
Gedeon Jean, hjá rannsóknarmiðstöð mannréttindamála á Haítí, sagði að flestir þeir sem rænt er skili sér aftur heilir á húfi ef lausnargjaldið er greitt. En flestir hafi sætt pyntingum og konum og stúlkum sé hópnauðgað. „Stundum hringja mannræningjarnir í fjölskyldur gíslanna svo þær heyri þegar nauðganirnar eiga sér stað,“ sagði hann.
Jovenial Moise, forseti, var skotinn til bana á heimili sínu í júlí á síðasta ári. Enginn hefur tekið við af honum og þing landsins er ekki starfandi. Glæpagengi eru með þinghúsið á sínu valdi.
Tæplega helmingur 11 milljóna íbúa landsins glímir við hungur og segja SÞ að á sumum stöðu í höfuðborginni sé ástandið þannig að telja megi að um hungursneyð sé að ræða.