Radio Free Asia skýrir frá þessu. Hefur miðillinn eftir heimildarmönnum að þegar aftökurnar áttu sér stað hafi embættismaður sagt að þeim sem horfa á suðurkóreskar myndir og þeim sem raski samfélagsró með morðum verði ekki fyrirgefið og verði teknir af lífi.
Voru piltarnir skotnir til bana í Hyesan í október en það var ekki fyrr en fyrir nokkrum dögum sem fregnir um málið bárust út fyrir Norður-Kóreu.
Piltarnir eru sagðir hafa verið handteknir fyrir að hafa smyglað minnislyklum, með suðurkóreskum kvikmyndum, til landsins og fyrir að hafa reynt að selja þá. Hafa yfirvöld útsendara víða í samfélaginu og voru það einmitt slíkir útsendarar sem komu upp um piltana.
Radio Free Asia segir að íbúum í Hyesan hafi verið skipað að horfa á aftökurnar til að hræða þá frá að fremja svipuð afbrot.
Norðurkóresk yfirvöld óttast að suðurkóresk og vestræn menning hafi áhrif á íbúa landsins en reynt er að halda þeim algjörlega einangruðum frá umheiminum. Af þessum sökum er tekið hart á þeim sem dreifa erlendu myndefni og tónlist.