Orion er geimfarið sem var nýlega skotið á loft með Artemis-eldflaug. Var förinni heitið til tunglsins en þó var ekki lent þar að þessu sinni. Um borð í Orion eru brúður, í líki fólks, til að hægt sé að mæla áhrif ferðar af þessu tagi á fólk.
Í samtali við Laura Kuenssberg í þættinum BBC Sunday sagði Howar Hu að geimskotið væri „sögulegur dagur“ fyrir geimferðir. Þetta hafi verið fyrsta skrefið í átt að langtíma rannsóknum á djúpgeimnum, ekki bara fyrir Bandaríkin heldur fyrir alla heimsbyggðina.
Hann sagði að markmiðið með Artemis-áætluninni sé að flytja fólk til tunglsins en þar er fyrirhugað að koma upp fastri viðveru í geimstöð á braut um tunglið. Munu geimfarar síðan nota litlar skutlur til að fara niður á yfirborð tunglsins.
Hann sagði að fólk muni örugglega búa á tunglinu, þó kannski ekki stöðugt. Þar verði íverustaðir og ökutæki.
Hann sagði að geimfararnir muni stunda rannsóknir á tunglinu. Næsta skref sé síðan að fara til Mars.