Danska ríkisútvarpið skýrir frá þessu og segir að í fréttatilkynningu frá lögreglunni sé haft eftir Jesper Rubow, saksóknara, að ákæran sé gefin út á grunni þeirra gagna sem lögreglan hefur aflað.
Konan hefur verið í gæsluvarðhaldi síðan 14. mars á þessu ári en þá var hún handtekin. Hún neitar sök.
Auk fyrrgreindra ákæruatriða er konan ákærð fyrir að hafa stolið lyfjum frá fjölda íbúa á dvalarheimilinu.
Í fréttatilkynningunni kemur fram að konan sé ákærð fyrir að hafa gefið einum íbúanna lyfseðilsskylt lyf sem varð viðkomandi að bana. Þetta gerðist 26. febrúar á þessu ári. Morðtilraunirnar áttu sér stað í byrjun mars að því er segir í ákærunni.
Í dómabók, frá því þegar gæsluvarðhaldskrafa yfir konunni var tekin fyrir, kemur fram að konan hafi verið eini starfsmaðurinn sem var á vakt daginn áður en fólkið veiktist og lést í einu tilfelli.
Auk þess sýna gögn að hún fór inn í lyfjaherbergi dvalarheimilisins þrátt fyrir að hún hefði ekki heimild til að gefa lyf. Hún sagði í yfirheyrslu að hún vissi mikið um lyf. Í dómabókinni kemur fram að heima hjá konunni hafi fundist lyf og lyfjaumbúðir sem tengjast málinu. Einnig fundust lyf, ætluð öðrum íbúum dvalarheimilisins, á heimili hennar.
Réttarhöldin fara fram í janúar og febrúar.