The Guardian skýrir frá þessu. Heimsfaraldur kórónuveirunnar og sú áhersla sem var lögð á baráttuna við hann afhjúpaði „veikleika“ í heilbrigðiskerfinu og í krabbameinsrannsóknum um alla Evrópu. Ef ekki verður brugðist skjótt við munu álfubúar færast næstum áratug aftur á bak hvað varðar krabbameinsrannsóknir og meðferðir að sögn sérfræðinga.
Í nýrri skýrslu, European Groundshot – Addressing Europe‘s Cancer Research Challenges, kemur fram að til að varpa betra ljósi á umfang vandans þá segist vísindamenn telja að ein milljón krabbameinstilfella hafi ekki verið greind á meðan heimsfaraldurinn geisaði. Sífellt fleiri vísbendingar komi fram um að hærra hlutfall sjúklinga greinist með krabbamein á síðari stigum en var áður en heimsfaraldurinn skall á. Þetta sé afleiðing hægagangs í greiningum og meðferðum. Þetta muni valda álagi á evrópsk heilbrigðiskerfi næstu árin.
Rannsóknin leiddi í ljós að á fyrsta ári heimsfaraldursins ræddi heilbrigðisstarfsfólk við 1,5 milljónum færri krabbameinssjúklinga og annar hver krabbameinssjúklingur fékk ekki viðeigandi skurðaðgerð eða lyfjameðferð í tíma. Um 100 milljónir rannsókna voru ekki gerðar og talið er að afleiðingin af því geti verið að um ein milljón Evrópubúa sé með ógreint krabbamein.