Parker, sem er 29 ára, var dæmd til dauða í síðustu viku fyrir grimmdarlegt morðið á Hancock og ófæddu barni hennar.
Haustið 2020 risti hún Hancock á kvið til að stela barninu sem hún bar undir belti. CNN skýrir frá þessu.
Mánuðum saman hafði Parker logið að unnusta sínum og talið honum trú um að hún væri barnshafandi. Hún notaði falskan maga, falsaði sónarmyndir, hélt sængurgjafateiti og gaf hinu ímyndaða barni nafnið „Clancy Gail“.
Á meðan hún hélt þessum blekkingum gangandi leitaði hún að hinu fullkomna fórnarlambi.
Hún fann Hancock og kyrkti hana og stakk hana síðan margoft með hníf og risti hana síðan á kvið og stakk af með barnið.
Lögreglan stöðvaði akstur hennar skömmu síðar og sagðist hún þá hafa fætt barnið á leiðinni á sjúkrahús. Það tók ekki langan tíma að ganga úr skugga um að Parker hafði ekki alið barnið. Því miður lifði það ekki af.
Verjandi Parker reyndi að sannfæra kviðdómendur um að ástæðan fyrir ódæðisverki Parker væri að hún hefði orðið fyrir miklum áföllum í æsku og hefði ekki fengið viðeigandi aðstoð eða meðferð vegna þeirra. Sagði verjandinn að málið væri „tilfinningalega erfitt“.
Jessica Brooks, móðir Hancock, sagðist þakklát fyrir að réttlætið hefði náð fram að ganga.