Þetta kemur fram í umfjöllun Sky News um málið. Þar kemur fram að Suwalki gatið sé veikur blettur hjá NATO því Kaliningrad, sem er hluti af Rússlandi, og Hvíta-Rússland liggja að því. Hvíta-Rússland er leppríki Rússa og háð duttlungum Pútíns.
Í bænum Vistytis, sem er nærri Suwalki gatinu, hafa margir bæjarbúar áhyggjur af stöðu mála og rússnesku hermönnunum sem eru ekki langt undan. Sumir eru sagðir hálf skelkaðir vegna þessa og séu undir það búnir að flýja til Póllands ef Litháen verður ógnað í framtíðinni.
„Við erum hrædd því ef Úkraína tapar, þá stöndum við frammi fyrir miklum vanda því Rússar munu sækja að okkur frá Kaliningrad og Hvíta-Rússlandi,“ sagði Vilius Kociubaitis, læknir bæjarins, í samtali við Sky News.
Mörg þúsund Litháar hafa skráð sig í varnarsveitir sem eiga að verja landið fyrir hugsanlegri innrás Rússa. Margir hafa einnig gengið til liðs við útlendingahersveitina sem berst með úkraínska hernum gegn Rússum.