Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til að það auki líkurnar á að fá óbætanlegan sjónmissi ef svefninn er ekki nægur. Sky News skýrir frá þessu.
Þegar gláka gerir vart við sig fækkar ljósnæmum frumum í auganu og sjóntaugin skemmist. Ef ekki er brugðist við getur þetta valdið blindu sem er óafturkræf.
Rannsóknin, sem hefur verið ritrýnd, náði til 409.000 manns. Hún hefur verið birt í BMJ Open Journal. Í henni koma fram nokkrar ástæður þess að slæm svefngæði og gláka geti tengst.
Ein er að innri þrýstingur á augað, sem er lykilatriði við þróun sjúkdómsins, aukist þegar fólk liggur og svefnhormónarnir eru í ólagi.
Þunglyndi og kvíði, sem oft koma upp samhliða svefnleysi, geta einnig aukið þrýstinginn og haft neikvæð áhrif á framleiðslu hýdrókortisón sem er aðal stresshormón líkamans.
Endurtekin og langvarandi tímabil með lágu súrefnisstigi í frumum, sem kæfisvefn veldur, geta einnig valdið skaða á sjóntauginni.