Samkvæmt fréttum danskra fjölmiðla þá var lögreglunni tilkynnt um árásina, sem átti sér stað á Samsøvej, klukkan 23.10.
„Við fengum tilkynningu um yfirstandandi árás. Við komum fljótt á vettvang og fundum konuna sem var illa særð eftir fjölda hnífsstungna. Hún var úrskurðuð látin við komuna á sjúkrahúsið í Holbæk,“ sagði fulltrúi lögreglunnar í samtali við Ekstra Bladet.
Konan var nýbúin í vinnunni og sat í bíl sínum þegar ráðist var á hana. „Það var ráðist á hana þar sem hún sat í bílnum sínum og hún var dregin út,“ sagði talsmaður lögreglunnar.
Kona, sem átti leið fram hjá, reyndi að koma konunni til aðstoðar. Hún náði taki á árásarmanninum en gat ekki komið í veg fyrir morðið.
Í fréttatilkynningu, sem lögreglan sendi frá sér í morgun, kemur fram að konan hafi verið barnshafandi og að barnið sé á lífi. Lögreglan vill ekki skýra frá hversu langt konan var gengin með barn sitt.
Vettvangsrannsókn hefur staðið yfir í alla nótt. Martin Eise Eriksen, sem stýrir rannsókninni, sagði í samtali við Ekstra Bladet að enginn hafi verið handtekinn vegna málsins og að enginn ákveðinn liggi undir grun.