Það var ekki fyrr en nýlega sem alríkislögreglunni FBI tókst að bera kennsl á líkið en hendurnar vantaði á það þegar það fannst. Konunni hafði verið misþyrmt kynferðislega með tréhlut og reynt hafði verið að hálshöggva hana. Krufning leiddi í ljós að hún hafði látist af völdum höfuðáverka sem hún hlaut þegar hún var lamin í höfuðið. Síðan var lík hennar flutt á staðinn þar sem það fannst.
Eftir því sem segir í umfjöllun Dagbladet þá var líkið grafið margoft upp síðustu 48 árin til að rannsaka það enn frekar en það var ekki fyrr en nýlega sem þetta skilaði árangri.
Á fréttamannafundi sagði fulltrúi FBI að með því að notast við erfðarannsóknir og ættfræðirannsóknir hefði tekist að bera kennsl á konuna. Hún hét Ruth Marie Terry og var 37 ára þegar hún var myrt.
Morðinginn hefur ekki fundist og sagði saksóknari að yfirvöld telji að hann sé látinn.