Áður hafði komið fram að lögreglan hafði tengt fimm morð í og við Stockton við sama morðingjann. En nú hefur eitt morð til bæst í rannsóknina sem og skotárás á konu, sem lifði af.
Joseph Silva, talsmaður lögreglunnar, sagði að málið falli undir skilgreiningu á raðmorðingja. „Það sem gerir þetta mál öðruvísi er að morðinginn bíður færis og að fórnarlömbin hafa verið ein á dimmu svæði,“ sagði hann að sögn AP.
Ekki er að sjá að morðin tengist glæpagengjum eða fíkniefnum að sögn lögreglunnar. Þau fimm morð sem fyrst voru tengd við morðingjann voru framin frá 8. júlí til 27. september á þessu ári.
Við þetta hafa nú bæst tvö mál frá því 16. apríl á síðasta ári en þá var kona skotin í Stockton. Hún lifði árásina af. Hitt er frá 10. apríl á síðasta ári en þá var karlmaður skotinn til bana í Oakland.
Nú hefur 125.000 dollurum verið heitið í verðlaun fyrir upplýsingar sem leiða til handtöku morðingjans.
Svo virðist sem fórnarlömbin eigi lítið sameiginlegt, ekki er að sjá að einhver sérstakur þjóðfélagshópur verði frekar fyrir barðinu á morðingjanum en aðrir, sum fórnarlambanna voru heimilislaus en önnur ekki. Engin voru barin eða rænda og ekki er talið að þau hafi þekkst.
„Við vitum ekki hvað býr að baki. Við teljum að þetta sé einhverskonar verkefni,“ sagði Stanley McFadden, lögreglustjóri í Stockton, í gær og bætti við: „Þessi maður er í leiðangri“.
Fyrsta fórnarlambið var Juan Vasquez Serrano, 39 ára, sem var skotin til bana í Oakland í apríl á síðasta ári.
Nokkrum dögum síðar var kona skotin en þrátt fyrir að vera særð tókst henni að hræða árásarmanninn með því að ganga í áttina að honum. Hún sagði hann hafa verið í dökkri hettupeysu með hettuna á höfðinu, í dökkum buxum og með svarta andlitsgrímu, COVID-grímu.
Eftir þetta virðist morðinginn hafa haft hægt um sig í rúmlega eitt ár eða þar til hann fór að láta að sér kveða í Stockton.
Þann 8. júlí á þessu ári var Paul Yaw, 35 ára, skotinn til bana og í kjölfarið fylgdu morðin á Salvador Debudey Jr., 43 ára, Jonathan Hernandez Rodriguez, 21 árs, Juan Cruz, 52 ára og nú síðast Lorenzo Lopez, 54 ára.
Lögreglan segir að fjórir af mönnum hafi verið einir á göngu þegar þeir voru skotnir en sá fimmti sat í bíl sínum.
Talið er að sama skammbyssan hafi verið notuð við öll morðin.