Adrienne Watson, talskona þjóðaröryggisráðs Hvíta hússins, ræddi málið í nótt og sagði að Bandaríkin standi við loforð sitt um verja Suður-Kóreu og Japan en útiloki ekki viðræður við einræðisstjórnina í Norður-Kóreu.
Eldflaugin, sem var skotið á loft í nótt, var sú fyrsta í fimm ár sem flaug yfir japanskt yfirráðasvæði. Watson sagði að eldflaugaskotið sýni að Norður-Kórea brjóti vísvitandi gegn ályktunum öryggisráðs SÞ og alþjóðlegum venjum í öryggismálum.
Hún sagði að Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi, hafi rætt við starfsbræður sína í Japan og Suður-Kóreu eftir eldflaugaskotið og hafi þeir rætt „viðeigandi og hörð viðbrögð“ við því. Hann sagði starfsbræðrum sínum að Bandaríkin hviki ekki frá því loforði sínu að verja Japan og Suður-Kóreu.