The Guardian segir að vísindamenn hafi rannsakað DNA úr þrettán Neanderdalsmönnum, körlum, konum og börnum. Þetta hafi varpað ljósi á áhugavert net ættartengsla, þar á meðal voru faðir og unglingsdóttir hans, frændi föðurins og tveir fjarskyldari ættingjar hans.
Allt var fólkið mikið innræktað en vísindamennirnir telja það afleiðingu af hversu fáir Neanderdalsmennirnir voru. Þeir bjuggu í litlum samfélögum á víð og dreif, oft ekki nema 10 til 30 einstaklingar í hverju samfélagi.
Laurits Skov, aðalhöfundur rannsóknarinnar, sagði að sú staðreynd að fólkið hafi allt verið uppi á sama tíma sé „mjög spennandi“ og gefi til kynna að það hafi tilheyrt sama samfélaginu. Venjulega finnast leifar Neanderdalsmanna einar og sér og oft eru mörg þúsund ár á milli þess tíma sem einstaklingarnir voru uppi. Fram að þessu hefur ekki verið hægt að segja til um hvort einstaklingarnir hafi tilheyrt samfélagi eða lifað einir.