Sky News segir að þrátt fyrir úrskurð dánardómsstjórans þá skorti gögn til að geta úrskurðað um hvernig andlát Theo bar að. Getgátur hafa verið uppi um að hann hafa lent í slysi eða verið myrtur.
Dánardómsstjórinn sagði í úrskurði sínum að engin ástæða hafi verið fyrir Theo til að láta sig hverfa af ásettu ráði og sagði að sjálfsvíg væri „mjög ólíklegt“. Hins vegar gat hann ekki komist að ákveðinni niðurstöðu um ástæðu andlátsins.
Ein af getgátunum sem kom fram við meðferð málsins hjá dánardómsstjóranum var að Theo hafi ætlað að klifra upp vita við Byron Bay og hrapað til bana. Önnur var að hann hafi verið myrtur og morðinginn eða morðingjarnir hafi losað sig við líkið. Dánardómsstjórinn sagði að því miður væru ekki næg gögn fyrir hendi til að hægt væri að útiloka þessar getgátur eða staðfesta þær.
Theo var búinn að vera á bakpokaferðalagi um Ástralíu í átta mánuði þegar hann hvarf. Hann ætlaði heim til Belgíu fljótlega eftir þetta örlagaríka kvöld. Hann sást yfirgefa Cheeky Monkeys næturklúbbinn í Byron Bay um klukkan 23 að kvöldi 31. maí 2019, eftir það hefur ekkert til hans spurst.
Tilkynnt var um hvarf hans sex dögum síðar. Hann hafði þá ekki skilað sér á hótelið sitt og ekki var hægt að ná sambandi við hann. Mikil leit var gerð að honum en án árangurs.