Ignatova og fyrirsætan og athafnakonan Ásdís Rán Gunnarsdóttir eru vinkonur. Eins og fram kom í umfjöllun DV fyrir tæpum þremur árum um hvarf Ignatova þá var Ásdís Rán andlit fyrirtækisins OneCoin út á við.
Í nýlegri umfjöllun BBC kemur fram að hugsanlega hafi Ignatova fengið upplýsingar um að lögreglan væri að rannsaka mál tengd henni og OneCoin. Hún hafi látið sig hverfa í framhaldinu.
Í sumar bætti bandaríska alríkislögreglan Ignatova á lista sinn yfir þá afbrotamenn sem hún leggur einna mesta áherslu á að hafa uppi á. Segir FBI að hún sé grunuð um fjársvik upp á 4 milljarða dollara.
Samkvæmt skjölum sem BBC hefur séð um fundi hjá Evrópulögreglunni Europol þá bendir margt til að Ignatova hafi vitað af rannsókn lögreglunnar nokkrum mánuðum áður en hún hvarf.
Skjölin voru send til hlaðvarpsins „The Missing Cryptoqueen“ sem Frank Schneider, fyrrum njósnari og ráðgjafi Ignatova, heldur úti. Hann segist ekki hafa fengið skjölin beint í hendur heldur hafi Ignatova sent honum þau á minnislykli. Lýsigögn bendi til að hún hafi fengið skjölin hjá eigin tengiliðum í Búlgaríu.
Gögnin snúast um kynningu hjá Europol í Haag þann 15. mars 2017. Þar var fjallað um svokallaða aðgerð „Operation Satellite“. Meðal fundargesta voru fulltrúar frá FBI, bandaríska dómsmálaráðuneytinu og saksóknara í New York auk lögreglumanna frá Bretlandi, Þýskalandi, Hollandi, Dubai og Búlgaríu.