Janúar 2021 var einmitt níu til tíu mánuðum eftir að gripið var til víðtækra sóttvarnaaðgerða víðast hvar í álfunni, víða með tilheyrandi stöðvun á samfélagsstarfsemi.
BBC fjallar um málið og nýja rannsókn þar sem þetta kemur fram. Segir að niðurstöður rannsóknarinnar bendi til að langvarandi stöðvun samfélagsstarfsemi hafi haft færri þunganir í för með sér.
Samdrátturinn var algengari í ríkjum þar sem heilbrigðiskerfið var í vanda og má þar nefna að í Litháen fækkaði fæðingum um 28% og í Rúmeníu um 23%. Á hinnbóginn varð engin breyting í Svíþjóð en þar var ekki gripið til stöðvunar á samfélagsstarfsemi.
Rannsóknin hefur verið birt í vísindaritinu Human Reproduction.
Vísindamennirnir segja að þetta geti haft „langtímaafleiðingar fyrir lýðfræðilega samsetningu þjóða, sérstaklega í vestanverðri Evrópu þar sem meðalaldurinn fer hækkandi“.
Dr Leo Pomar, einn höfunda rannsóknarinnar, sagði að líklegt sé talið að áhyggjur foreldra af vanda á heilbrigðissviðinu og félagslegum vanda hafi valdið því að fólk hélt aftur af sér við barneignir í fyrstu bylgju faraldursins.