Loftsteinn skall þarna niður fyrir tveimur milljörðum ára. Út frá nýjum mælingum og reiknilíkönum hafa vísindamenn við Rochester háskólann í Bandaríkjunum reiknað út að gígurinn hafi verið 250 til 280 km í þvermál á sínum tíma. Þar með er gígurinn sá stærsti á jörðinni.
Videnskab skýrir frá þessu og segir að þetta þýði að loftsteinninn hafi verið 20 til 25 km í þvermál og að hraði hans hafi verið allt að 20 km á sekúndu.
Áður var talið að Vredefort-loftsteinninn hafi verið 15 km í þvermál og hafi verið á 15 km hraða á sekúndu þegar hann skall á jörðinni. Það hefði þýtt að hann hefði myndað gíg, sem væri um 172 km í þvermál, við áreksturinn.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda einnig til að höggþunginn við áreksturinn hafi verið miklu meiri en við árekstur loftsteinsins sem gerði út af við risaeðlurnar fyrir 66 milljónum ára og myndaði Chicxulub-gíginn í Mexíkó. Talið er að þvermál hans hafi verið 10 km.
En það er mikill munur á áhrifum árekstra þessara tveggja loftsteina á lífið hér á jörðinni. Ekki kom til fjöldaútdauða tegunda eða skógarelda við árekstur Vredefort-loftsteinsins því þá voru bara einfrumungar sem lifðu hér og engin tré.